The Porvoo Statement in Icelandic

Yfirlit

Formáli formanna

I.  Baksvið

A. Nýtt tækifæri
B.  Sameiginlegur grundvöllur kirkna okkar
C.  Sameiginlegt hlutverk okkar nú á dögum

II. Eðli og eining kirkjunnar

A. Ríki Guðs, leyndardómur og tilgangur kirkjunnar
B. Eðli samfélags og markmið einingar

III  Það sem sameinar okkur í trúnni

IV  Biskupsþjónustan og postullegt einkenni kirkjunnar

A. Postulleg einkenni allrar kirkjunnar
B.  Postulleg þjónusta
C.  Biskupsembættið í þjónustu postullegrar vígsluraðar
D.  Órofa biskupsvígsla sem tákn
E.  Nýr vettvangur

V  Í átt að nánari einingu

A.  Sameiginleg yfirlýsing
B.  Helgihald
C.  Samkirkjuleg markmið í víðara samhengi

Formáli formanna

1.  Á undanförnum árum hafa orðið örlagaríkar breytingar í Norður-Evrópu. Ný tengsl hafa myndast í viðskiptum, menntun, ferðaþjónustu og umhverfismálum milli Norðurlanda, Eystrasaltslanda og Bretlandseyja. Á þessu umbreytingaskeiði þjóna anglíkanskar kirkjur og lúterskar kirkjur mikilvægu hlutverki. Þessi skýrsla lýsir hvernig tólf slíkar kirkjur, sem 50 milljónir kristinna manna tilheyra, eru að treysta böndin sín á milli jafnframt því sem þær taka höndum saman um ýmis hagnýt verkefni er lúta að þeirri þjónustu sem þær veita[1]. Það er fagnaðarefni að hefðir anglíkanskra og lúterskra kirkna í vestrænni kristni sem eiga svo margar sameiginlegar rætur og einkenni, skuli enn á ný á þessari öld hafa komið auga hvor á aðra og tengst nýjum böndum.

2 . Porvoo-samkomulagið er afkvæmi ákveðinna strauma. Hinn fyrsti var guðfræðiviðræður sem áttu sér stað milli anglíkanskra manna og lúterskra á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum á árunum 1909-1951 og það samkomulag sem þær viðræður gátu af sér[2] Í öðru lagi voru tengsl þessara kirkna styrkt með ýmsu móti án þess að vera í beinum tengslum við umræður um einingarviðleitni. Þar má nefna guðfræðiráðstefnur milli norrænna manna og anglíkanskra (er hófust 1929) og ráðstefnur presta sem hófust 1978 og standa enn. Í þriðja lagi skapaðist nýtt andrúmsloft guðfræðilegra viðræðna á áttunda og níunda áratugnum fyrir tilstilli samkirkjulegrar umræðu. Um það bera eftirtaldar skýrslur vitni: Pullach 1973, Lima 1982, Helsinki 1982, Cold Ash 1983 og Niagara 1988.[3] Það er sérstaklega síðasta skýrslan sem hefur varpað nýju ljósi á gamlar spurningar um trú og skipulag.

3.  Hvatinn að áframhaldandi starfi kom einkum frá erkibiskupnum af Kantaraborg, Robert Runcie og erkibiskupnum í Uppsölum, Bertil Werkström. Starf þeirra er einnig mikilvægt sem höfðu með nánara skipulag að gera, kanúkanna Christopher Hill og Martin Reardon frá Englandi, ásamt Lars Österlin rektor frá Svíþjóð og prófessor Ola Tjörhom frá Noregi. Við eigum þeim skuld að gjalda fyrir framsýni og einurð sem leiddu til jákvæðra viðbragða meðal þátttökuþjóða.

4.  Frekari hvati að þessum viðræðum var samkomulag anglíkanskra og lúterskra manna í Bandaríkjunum 1982 svo og Meissen-samkomulagið frá 1988 milli ensku kirkjunnar og evangelísku kirknanna í Austur- og Vestur-Þýskalandi. Í þessum samningum fólst m.a. sameiginlegur aðgangur að sakramentunum, ákveðið en takmarkað samstarf vígðra þjóna, sameiginleg þjónusta að sakramentunum í vissum tilvikum og hvatning að nánara lífi og starfi. Hér að lútandi höfum við upplýsingar frá fulltrúum kirknanna sem tóku þátt í gerð viðkomandi samninga.

5.  Á árunum 1989-1992 voru fjórum sinnum haldnar formlegar guðfræðilegar samræður þar sem að þátt tóku fulltrúar frá öllum viðkomandi kirkjum. Þess á milli hélt sá hópur fundi sem gerði uppkast að samkomulaginu. Við viljum nota þetta tækifæri og þakka meðlimum þess hóps, sérstaklega Stephen Sykes biskupi (Ely), Tord Harlin biskupi í Uppsölum og dr. Lorenz Grönvik frá Finnlandi sem gáfu sér fúslega tíma til þessa verkefnis. Við viljum einnig þakka þeim sem skutu yfir okkur skjólshúsi á fundunum; ráðgjöfum okkar; Gunnel Borgegaard framkvæmdastjóra fyrir verk hennar að samræmingu norænna þýðinga og öllum þeim sem sáu um þýðingar á önnur tungumál. Ennfremur þeim starfsmönnum sem notuðu starfskrafta sína í þágu þessa verkefnis: dr. Mary Tanner; sr. Geoffrey Brown; Colin Podmore og sr. Kaj Engström.

6.  Hlutverk þessara viðræðna var að halda upp frá brotakenndum samningum sem þegar voru í gildi og ná fram til sýnilegs árangurs og einingar. Með því að byggja á fyrri einingarviðræðum vonuðumst við til að auka sameiginlegan skilning og leysa langvarandi vandamál um biskupsþjónustuna og vígsluröðina. Við uppgötvuðum að við áttum svipaða sögu að baki og stóðum frammi fyrir líkum vandamálum í samtímanum. Einnig að ekki var um að ræða neinn verulegan ágreining varðandi trú, sakramenti eða vígða þjónustu (sérhver kirkja laut biskupsvaldi). Við sannfærðumst um að nú væri lag að kirkjurnar viðurkenndu hver aðra sem systurkirkjur, þrátt fyrir að hver og ein héldi sínum sérkennum. Tíminn var fullnaður til að nálgast hver aðra og koma á raunverulegu samkomulagi sem hefði þýðingu fyrir leika og lærða í sameiginlegri baráttu.

7.  Það sýndi sig að ofangreint markmið var að skapi anglíkanskra og lúterskra kirkna í nálægum löndum og því var hópurinn stækkaður. Upprunalega komu fulltrúarnir frá Norðurlöndunum fimm (Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð) ásamt Lettlandi, Eistlandi og Englandi. Frá byrjun og æ síðan fengu kirkjuleiðtogar í Litháen sem og Írlandi, Skotlandi og Wales upplýsingar um gang viðræðnanna. George Carey hvatti þessar kirkjur til fullrar þátttöku, en áður en hann gerðist erkibiskup af Kantaraborg var hann einn af upprunalegum þátttakendum Englendinga. Það var öllum fagnaðarefni þegar þessar síðast nefndu kirkjur bættust í hópinn.

8.  Lokaútgáfa samkomulagsins var samþykkt einróma þriðjudaginn 13. október 1992 í Jarvenpaa. Hún var nefnd Porvoo-samkomulagið eftir finnsku borginni þar sem við höfðum neytt saman altarissakramentisins í dómkirkjunni sunnudaginn á undan. Það má segja að sameiginleg lofgjörð og tilbeiðsla anglíkanskra og lúterskra manna á meðan á fundunum stóð hafi átt sinn drjúga þátt í þeirri eindrægni sem ríkti.

9.  Hvað varðar form og innihald þessarar skýrslu þá fylgir hér stutt greinargerð:

Kafli I Þar er samhengi sögu og samtíma reifað og viðræðurnar um kenningaratriði tengdar við hlutverk hinnar almennu kirkju. Hér er fylgt sjónarhorni Niagara-skýrslunnar.

Kafli II Þar er samkomulaginu lýst hvað varðar eðli kirkjunnar og markmið áþreifanlegrar einingar. Sérstaklega eru greinar 20 og 28 mikilvægar vegna framhaldsins.

Kafli III fjallar í stuttu yfirliti um þau veigamiklu atriði trúar og hefða sem anglíkanskir og lúterskir menn eiga sameiginleg. Atriðin tólf í grein 32 fjalla um kenningaratriði sem áður hefur verið gert samkomulag um.

Kafli IV hefst á því í grein 34 að skilgreina vandann sem þarf að leysa; nefnilega biskupsþjónustuna og tengsl hennar við vígsluröð. Því næst fer skýrslan ótroðnar slóðir í grein 35. Það sem á eftir kemur verðskuldar athygli. Í þessum kafla er kafað til botns í því hvað postulleg hefð táknar, svo og biskupsþjónusta og órofa vígsluröð sem “tákn”. Þetta er gert til að forðast misskilning og neikvæð viðbrögð af hálfu kirkna okkar. Þau guðfræðirök sem hér liggja til grundvallar tengjast síðan aftur í grein 54 trúboði kirkjunnar og niðurstöðurnar eru svo reifaðar í greinum 56-57. Þar eð þessi hluti skýrslunnar er sprottinn upp úr raunverulegum aðstæðum í kirkjulífi tólf mismunandi landa, bendum við lesendum á tólf sögulegar ritgerðir um biskupsþjónustuna og á inngang Christopher Hill Essays on Church and Ministry in Northern Europe.[4] Fyrir lesendur sem tilheyra anglíkönskum kirkjum skal bent á ritgerð John Halliburton um skilning lúterskra manna á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum á vígslunni eins og hann birtist í helgisiðabókum sem nú eru í notkun. Því sem er líkt og ólíkt í vígslu og þjónustu djákna er lýst í öðrum ritgerðum. Við viljum þakka höfundum þessara ritgerða fyrir störf sín og þá sérstaklega Hill kanúka sem var ritstjóri þeirra.

Kafli V inniheldur Porvoo-yfirlýsinguna í grein 58 en hún verður lögð fyrir valdastofnanir hverrar kirkju til samþykkis. Í lið b. (v) kemur skýrt fram að skipti á vígðum þjónum skulu vera í samræmi við þær reglur sem gilda hverju sinni. Þarna er horft raunsætt á ákveðin vandamál hvað snertir slíka þjónustu í söfnuðum okkar, t.d. varðandi þjónustu kvenbiskupa (og þeirra sem hafa verið vígðir af þeim) eða kvenpresta á vissum svæðum, kröfur um kunnáttu í tungumálinu, sem og faglegar kröfur, vinnulöggjöf o.s.frv.

10.  Við leggjum þessa skýrslu nú fram til ýtarlegrar skoðunar innan þeirra kirkna sem eiga hér aðild að máli. Textinn hefur verið þýddur á viðkomandi tungumál en enski textinn er frumtexti. Eins og skýrt kemur fram í greinum 60 og 61 þá eru þessar tillögur ekki í mótsögn við þau samkirkjulegu tengsl sem þegar eru fyrir hendi. Samt erum við þeirrar skoðunar að þessi skýrsla hafi þýðingu fyrir aðrar kirkjur. Við hvetjum því til þess að álits verði leitað hjá öðrum aðilum hins samkirkjulega starfs. Við leggjum þessar tillögur fram í hógværð fyrir þá, jafnt sem okkar eigin kirkjuyfirvöld.

11.  Við berum þá sterku von í brjósti að sérhver kirkja sem tók þátt í þessu starfi muni samþykkja Porvoo-yfirlýsinguna. Ef sú verður raunin þá verður þetta mikilvægt skref í þá átt að endurreisa áþreifanlega einingu kirkju Krists. Jafnskjótt og einstakar anglíkanskar og lúterskar kirkjur hafa samþykkt yfirlýsinguna, getur samvinna hafist á milli þeirra, þó í samræmi við nauðsynlegar breytingar sem hver einstök kirkja kann að þurfa að gera á lögum sínum og reglum. Aðeins með tíð og tíma koma áhrif og afleiðingar yfirlýsingarinnar fullkomlega í ljós. Mælt er með að hátíðahöld til að fagna nýjum tengslum fari ekki fram fyrr en viðbrögð hafa borist frá öllum þátttökukirkjum.

12.  Í messunni í Porvoo-dómkirkju síðasta sunnudag viðræðna okkar minnti predikarinn okkur á að ekki væri nóg að gleðjast yfir arfi beggja kirkjudeilda. Ef fagnaðarerindið á að móta líf safnaða okkar þá nægja ekki þær hefðir sem við höfum erft, heldur verðum við að vera opin fyrir nýjum viðfangsefnum. Sérstakt verkefni bíður þeirra sem tilheyra þjóðkirkjum; að vera gagnrýnin og spámannleg rödd í lífi þjóða sinna en einnig að vitna um eininguna í Kristi sem þekkir ekki þjóðerni né landamæri. Við trúum því að sú innsýn og þær tillögur sem er að finna í þessari skýrslu auðveldi okkur að svara einum rómi spurningum sem slíkt vekur, og að þær auðveldi sérhverri af kirkjum okkar að þjóna og bera trú okkar vitni, ekki aðeins meðal sinnar þjóðar eða menningarsvæðis, heldur einnig í hinu víðara samhengi Evrópu.

David Tustin, biskup í Grimsby
Dr. Tore Furberg, Biskup emerítus í Visby
Jóhannesarborg, febrúar 1993

Baksvið

A Nýtt tækifæri

1. Fyrir handleiðslu Guðs hafa meðlimir lútersku og anglíkönsku kirknanna um allan heim hafið samstarf í boðun og þjónustu, og uppgötvað hvað þeir eiga margt sameiginlegt. Í Evrópu hafa kirkjudeildir okkar lifað hlið við hlið um aldir. Um skeið hafa kirkjur okkar haft presta í löndum hver annarrar. Þau störf hafa haft aukna þýðingu með vaxandi flutningum fólks landa á milli. Þar sem báðar hefðirnar fyrirfinnast innan sama svæðis eins og í Norður-Ameríku og Suður- og Austur-Afríku hafa ný tengsl myndast og staðbundið samkomulag gjarnan verið gert. Á sama tíma verður sambandið nánara milli meðlima þessara kirkjudeilda í Evrópu. Það sannfærir okkur um að tími sé til þess kominn að endurskoða og endurbæta þá sáttmála sem fyrir hendi eru.

2.  Þessir sáttmálar [1] gefa færi á misnánu samfélagi en hafa þó aðeins að hluta komist í framkvæmd. Til dæmis hefur stjórnmálaþróun í Eystrasaltslöndunum hindrað framkvæmd þeirra í fimmtíu ár, frá 1939 til 1989. Sáttmálarnir hafa verið mismunandi vegna þess að anglíkanar hafa greint á milli mismunandi lúterskra kirkna, á grundvelli þess hvort biskupsvígsla var samfelld eða ekki. Samt sem áður hafa kirkjur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna ávallt átt samfélag um sakramentin. Að auki eru Norðurlönd í vaxandi mæli álitin eitt svæði og kirkjur þeirra starfa nú náið saman, m.a. á vettvangi norræna biskupafundarins og Kirknasambands Norðurlanda. Stjórnmálabreytingar í Austur-Evrópu hafa vakið með kirkjum Eystrasaltslandanna nýjar vonir. Þær þróa nú sitt eigið kirkjulíf og leggja sífellt meira af mörkum í hinu víðara samfélagi kirknanna. Samstarf við þessar kirkjur verður stöðugt mikilvægara þar sem hin hraða þjóðfélagsþróun veitir þessum kirkjum síaukin tækifæri.

3. Kirkjur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja vilja efla samfélag við anglíkönsku kirkjurnar í Bretlandi og á Írlandi, ekki aðeins einstakar þjóðkirkjur heldur einnig kirkjuheildin. Nefndin fagnar nýjum samböndum við lútersku kirkjuna í Lettlandi. Hún telur að möguleiki hafi opnast að gera nýjan sáttmála milli kirkna okkar sem greinir ekki á milli þeirra eins og áður.

4. Það eflir þessa trú okkar að á nokkrum málþingum lúterskra og anglíkanskra kirkna hafa menn nálgast guðfræðilega.[2] Ennfremur hefur opinber viðurkenning ensku kirkjunnar og evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi á Meissen-yfirlýsingunni gefið til kynna að sameiginlegur skilningur á eðli hinnar almennu kirkju hafi aukist.

5. Anglíkönsku kirkjurnar og þær lútersku hafa einnig haft hag af hinni samkirkjulegu nálgun orþódoxra-, rómversk-kaþólsku og mótmælendakirkna á kenningum um kirkjuna, boðunina og sakramentin. Þessi nálgun hefur leitt okkur fram hjá skerjum misskilnings og mismunandi hugsunarháttar sem hefur hindrað einingarviðleitni milli anglíkanskra og lúterskra kirkna. Mikilvægur í þessu samhengi er sá skilningur að leyndardómur kirkjunnar felist í því að hún er líkami Krists; hún er lýður Guðs á pílagrímsför; hún er samfélag (koinonia), en síðast en ekki síst er hún þátttaka í vitnisburði og þjónustu Guðs við heiminn. Þetta veitir okkur möguleika á að nálgast frá nýju sjónarhorni spurningar um prests- og tilsjónarhlutverkið (episkope).

6. Umfram allt þá stöndum við frammi fyrir sameiginlegu verkefni sem er að vera samverkamenn Guðs í verki hans meðal þjóða okkar á tímum þegar óvenjuleg tækifæri gefast, tímum sem má með sönnu kalla kairos[3].

Sameiginlegur grundvöllur kirkna okkar

7. Trú, tilbeiðsla og andlegt líf kirkna okkar á rætur sínar í hefð hinnar postullegu kirkju. Við byggjum á arfi sem kominn er frá kirkjufeðrunum og kirkju miðaldanna bæði beint og í gegnum túlkun siðaskiptatímans. Öll teljum við kirkjur okkar vera hluta hinnar einu, heilögu og almennu kirkju Jesú Krists og að þær eigi þátt í hinu postullega starfi Guðs lýðs. Við erum hluti hinnar vestrænu hefðar í guðsþjónustulífi og sameinumst um áherslur siðaskiptanna á réttlætingu af trú svo og á orðið og sakramentin sem náðarmeðul. Allt þetta felst í játningum okkar og helgisiðabókum. Þeirri skoðun vex fylgi að þetta sé bandið sem bindur kirkjur okkar saman og jafnframt framlag okkar til hinnar samkirkjulegu hreyfingar.

8. Þrátt fyrir landfræðilegan aðskilnað og ólík tungumál, menningu og sögu, þá eiga anglíkanskar kirkjur Bretlands og Írlands, og lúterskar kirkjur Norðurlanda og Eystrasaltslanda mikið sameiginlegt, ekki síst í sögulegu tilliti. Engilsaxneskir og keltneskir trúboðar áttu stóran þátt í útbreiðslu kristindómsins í Norður-Evrópu og stofnuðu nokkra þekkta biskupsstóla á Norðurlöndum. Hinn órofa vitnisburður hvers biskups á fætur öðrum í sínu biskupsdæmi og ræktun safnaðar- og guðsþjónustulífs í kirkjum landa okkar, er órækur vitnisburður um samfellt kristið líf í gegnum aldirnar, og um einingu kirknanna á Englandi, Írlandi og í Norður-Evrópu.

9.  Kirkjur okkar, hver um sig, hafa gegnt veigamiklu hlutverki í félagslegri og andlegri þróun þjóðar sinnar. Við höfum gert okkur grein fyrir hlutverki okkar gagnvart þjóðinni allri. Flestar hafa kirkjur okkar sinnt sálusorgun og stundum lagalegri ábyrgð gagnvart meirihluta fólks í löndum okkar. Nú á dögum annast þær þetta starf í samvinnu við aðrar kirkjur.

C.  Sameiginlegt hlutverk okkar nú á dögum

10.  Kirkjur okkar og þjóðir standa nú á tímum frammi fyrir nýjum verkefnum og tækifærum á vettvangi hugmyndafræðilegra, félagslegra og pólitískra breytinga í Evrópu. Meðal þeirra má nefna:

a.  Vaxandi vitund meðal Evrópuþjóða um að þær séu háðar hver annarri og beri gagnkvæma ábyrgð; að þörf sé á að bæta fyrir ranglæti sem stafar af hernaði í Evrópu í margar aldir, en þó sérstaklega á þessari öld og hefur haft áhrif á allan heiminn.
b.  Ný tækifæri – sem eru sérstaklega áberandi meðal Eystrasaltsríkjanna – til kristinnar boðunar, endurnýjunar og safnaðarstarfs meðal allra þjóðanna; ný framsetning á kristinni trú frammi fyrir ríkjandi hagnýtri efnishyggju og þrá fjölda fólks eftir andlegum gildum.
c.  Nauðsyn þess að bregðast við því tómarúmi sem hefur skapast í Austur-Evrópu við fall heildstæðs stjórnmálakerfis og þeirri fjölhyggju sem í vaxandi mæli setur mark sitt á þjóðfélög Bretlands, Írlands og Norðurlanda.
d.  Tækifæri að vinna að friði, réttlæti og mannréttindum; að draga úr andstæðum milli ríkra þjóða og snauðra sem þjást vegna efnahagslegrar ánauðar; að rétta hag fátækra og örvæntingarfullra -sérstaklega innflytjenda, flóttamanna og minnihlutahópa.
e.  Vistfræðilega umræðu innan og milli landa Norður-Evrópu sem kirkjurnar eru byrjaðar að bregðast við með jákvæðri guðfræði um sköpun og holdtekju sem gefur jörðinni og lífinu varanlegt gildi í öllum myndum þess.
f.  Nauðsyn samræðu og skilnings gagnvart fólki af öðrum kynþáttum, menningarsvæðum og trúarlegum hefðum sem eru samt félagar og samborgarar hinnar nýju Evrópu.

11.  Allar helstu kirkjur Evrópu ræða nú saman um áðurnefnd atriði, sérstaklega í kjölfar Samkirkjulegs þings Evrópu (Basel, 1989), sem Kirknasamband Evrópu (CEC) og Ráð kaþólskra biskupa í Evrópu (Council of Catholic Bishops’Conferences in Europe, CCEE) stóðu sameiginlega fyrir. Við hvetjum eindregið til samráðs af þessu tagi og viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar hvað varðar nýjungar sem spretta fram af því. Með því að byggja á þeirri einingu sem við höfum nú þegar náð viljum við fyrir slíkan vitnisburð og þjónustu efla enn nánari einingu í framtíðinni.

12.  Innan hins víðara samhengis Lúterska heimssambandsins og Sambands anglíkanskra kirkna (Anglican Communion) hafa kirkjur okkar gert sér ljósa nauðsyn þess að glíma við vandamál og verkefni á heimsvísu.

13.  Frammi fyrir spurningum sem vakna um sameiginlegt verkefni okkar nú á dögum, sameinast kirkjur okkar um að lýsa það sem skyldu sína að þjóna heiminum öllum sem og sínum eigin þjóðum. Jafnframt sameinast þær um að boða læknandi ást Guðs og sáttargerð í samfélögum þar sem ofsóknir, kúgun og ranglæti hefur ríkt. Þessi sameiginlega boðun í orði og sakramenti áréttar leyndardóm kærleika Guðs, nálægðar hans og ríkis hans.

 

II  Eðli og eining kirkjunnar

A. Ríki Guðs, leyndardómur og tilgangur kirkjunnar

14.  Tímarnir krefjast þess að kirkjan leggi eitthvað nýtt af mörkum. Samkomulag okkar eins og það er að finna í þessu skjali, um eðli kirkjunnar og einingu hennar, gefur til kynna leiðir til að bregðast við kalli tímans. Okkur hefur orðið það ljóst að við erum ekki framandi hver öðrum heldur “samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. …bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini” (Ef.2:19-20). Fyrir náð sína hefur Guð laðað okkur inn á áhrifasvæði sitt til að sætta við sig allt sem hann hefur skapað og haldið við (II. Kor. 5:17-19), til að frelsa sköpunina frá allri ánauð (Róm.8:19-22) og til að safna öllu til einingar með sér (Ef.1:9 og áfram). Takmark Guðs í Kristi er að endurreisa og endurnýja allt sem hann hefur gert, að Guðsríkið komi í fyllingu sinni.

15.  Guð faðir sendi son sinn Jesú Krist í heiminn til að draga okkur til sín. Með lífi Krists, dauða og upprisu opinberast ást Guðs og við erum frelsuð frá valdi syndar og dauða (Jóh.3:16-18). Samfélag okkar við Guð er endurreist fyrir náð sem tekið er við í trú. Við erum heimt úr helju til að lifa nýju lífi (Róm.6:1-11), endurfædd, ættleidd sem synir og dætur og gefið frelsi til að lifa í Andanum (Gal.4:5, Róm.8;14-17). Þetta er kjarni þess fagnaðarerindis sem kirkjan boðar og í þessari boðun safnar Guð lýð sínum saman. Á öllum öldum, allt frá dögum postulanna hefur það verið tilgangur kirkjunnar að boða þetta fagnaðarerindi í orði og verki: “Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag (koinonia) við oss. Og samfélag (koinonia) vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist” (1.Jóh.1:3).

16.  Trúin er þannig staðfesting Guðs á að ljósið hafi komið inn í heiminn, að Orðið hafi orðið hold og dvalið á meðal okkar og gefið okkur rétt á að verða Guðs börn (Jóh.1:1-13). Trú, sem líf í samfélagi við þríeinan Guð, fæðir okkur inn í líf kirkjunnar, líkama Krists, og styrkir okkur og nærir. Það er gjöf fyrirgefningarinnar sem frelsar okkur frá oki syndarinnar og frá þeirri nauð að þurfa að réttlæta okkur sjálf. Okkur er gefið líf í þakklæti, ást og von. Af náð erum við hólpin orðin fyrir trú (Ef.2:8).

17. Fagnaðarerindið kallar okkur til þessa lífs í samfélagi við Guð og hvert við annað (koinonia). Í skírninni sameinar heilagur andi okkur Kristi í dauða hans og upprisu (Róm.6:1-11; 1. Kor.12:13); í kvöldmáltíðinni nærumst við og styrkjumst sem limir hins eina líkama, með þátttöku í líkama og blóði Krists (1.Kor.10:16 og áfram). Kirkjan og fagnaðarerindið eru þannig tengd órofa böndum. Trú á Jesú, hinn smurða, sem grundvöll ríkis Guðs stafar þannig af hinni sýnilegu og heyranlegu boðun fagnaðarerindisins í orði og sakramentum. Það er og engin boðun orðsins og sakramentanna án samfélagsins og embætta þess[1]. Þannig byggist samfélag kirkjunnar á boðun orðsins og útdeilingu sakramentanna sem vígðir þjónar kirkjunnar annast. Guð skapar og heldur kirkjunni við í gegnum þessar gjafir og gefur trú, ást og nýtt líf á hverjum degi.

18.  Við verðum að sjá samfélagið í kirkjunni sem verkfæri í þágu lokamarkmiðs Guðs. Þetta samfélag lifir Guði til dýrðar við að þjóna í hlýðni því starfi Krists að sætta mannkyn og sköpun alla við Guð (Ef.1:10). Þess vegna er kirkjan send inn í heiminn sem tákn, verkfæri og undanfari veruleika sem upprunninn er handan sögunnar – ríkis Guðs. Í kirkjunni holdgast leyndardómur frelsunarinnar í nýju mannkyni sem hefur verið sætt við Guð og innbyrðis í Jesú Kristi (Ef.2:14, Kól.1.19-27). Kirkjan bendir í þjónustu sinni og boðun á raunveruleika Guðsríkisins; og fyrir kraft Heilags anda á hún hlutdeild í því guðlega verki þegar Faðirinn sendi Soninn til að vera frelsari heimsins (1. Jóh.4:14, sbr Jóh.3:17).

19.  Heilagur andi gefur söfnuði kristinna manna margvíslegar gjafir. Þær eiga að vera til heilla fyrir allan Guðs lýð og birtast í þjónustu innan safnaðarins og gagnvart heiminum. Sérhver kristinn maður er kallaður til þess að uppgötva með hjálp safnaðarins gjafir sínar og nota þær til þess að uppbyggja kirkjuna og þjóna þeim heimi, sem kirkjan er send til.[2]

20. Kirkjan er guðlegur veruleiki. Hún er heilög og handan forgengilegs tíma og rúms. Á sama tíma setur breyskleiki og ófullkomnun mannlegs samfélags mark sitt á hana því hún er mannleg stofnun. Kirkjan er ávallt kölluð til iðrunar, endurbóta og endurnýjunar. Hún þarf stöðugt að lifa í náð Guðs og fyrirgefningu. Ritningarnar gefa okkur mynd af kirkjunni sem lifir í ljósi fagnaðarerindisins:

  • Kirkjan er rótfest og grundvölluð á kærleika og náð Drottins Jesú Krists.
  • Kirkjan mótast alltaf af gleðinni, biður stöðugt og þakkar jafnvel þótt hún þjáist.
  • Kirkjan er pílagrímakirkja, lýður Guðs með nýjan himneskan þegnrétt, heilög þjóð og konunglegt prestafélag.
  • Kirkjan játar sameiginlega postullega trú í orði og lífi, trú sem er sameiginleg kirkjunni alls staðar og á öllum tímum. Kirkjan hefur hlutverk gagnvart öllum kynþáttum og þjóðum, að predika fagnaðarerindið, að boða fyrirgefningu syndanna, skíra og veita altarissakramentið.
  • Kirkjan á sér vígða postullega þjóna sem eru sendir af Guði til kalla saman og næra lýð Guðs hvarvetna, sameina hann og tengja hinni almennu kirkju í öllu samfélagi heilagra.
  • Kirkjan staðfestir í áþreifanlegu samfélagi læknandi og sameinandi kraft Guðs meðal sundraðs mannkyns.
  • Kirkjan er samfélag bundin sterkum böndum er leyfa henni að bera vitni í heiminum á árangursríkan hátt, til að vernda og túlka hina postullegu trú, að taka ákvarðanir, beita kennivaldi og veita af gæðum sínum til nauðstaddra.
  • Kirkjan er lifandi og hún svarar þeirri von sem Guð hefur gefið henni; hún væntir þeirrar hlutdeildar sem Guð hefur heitið henni í arfi síns lýðs; hún bregst við þeirri von að fá að njóta krafts Guðs og er opin þeim sem treysta á hann.

Þessi mynd af kirkjunni er á engan hátt tæmandi, samt bendir hún kirkjum okkar á hvernig við verðum trúverðug og minnir á að við höfum stöðuga þörf fyrir iðrun og endurnýjun.

B. Eðli samfélags og markmið einingar

21. Ritningarnar lýsa einingu kirkjunnar sem gleðilegu samfélagi við Föðurinn og Soninn Jesú Krist (t.d. 1.Jóh.1:1-10) sem og meðlima hennar. Jesús biður að lærisveinarnir megi vera eitt eins og Faðirinn er í honum og hann í Föðurnum, svo að heimurinn megi trúa (sjá Jóh.17:21). Vegna þess að eining kirkjunnar er grundvölluð á þeim leyndardómi sem er samband persóna þrenningarinnar, er sá leyndardómur nauðsynleg forsenda þeirrar einingar. Um einingu líkama Krists er rætt í tengslum við að einn er andinn og ein vonin “Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra…”(Ef.4:4-6) Samfélag kristinna manna og kirkna skyldi ekki vera álitið manna verk. Það er gjöf sem Kristur gefur og “eins og öll góð gjöf kemur einingin frá Föðurnum fyrir Soninn í Heilögum anda”.[3]

22.  Í þessu ljósi hlýtur klofningur að vera afbrigðilegt ástand. Þrátt fyrir syndir okkar og sundrung örlar nú þegar á þeirri einingu í kirkjunni sem hún er kölluð til. Einingin þarf að verða augljós og opinber í skipulagi kirkjunnar, svo að það megi sjást fyrir Heilagan anda að hún er einn líkami Krists og tákn, tæki og frumgróði Guðsríkisins sem koma skal. Í þessu samhengi eru allar hefðbundnar kirkjudeildir aðeins til bráðabirgða.

23. Sýnilegri einingu má þó ekki rugla saman við það að vera eins. “Eining í Kristi er ekki þrátt fyrir og í andstöðu við fjölbreytni, heldur er gefin með og í fjölbreytni”[4]. Þessi fjölbreytni samsvarar hinum mörgu gjöfum Heilags anda til kirkjunnar og er því hugtak sem hefur grundvallarþýðingu fyrir kirkjuskilning okkar á öllum sviðum en er ekki aðeins tilslökun gagnvart guðfræðilegri fjölhyggju. Bæði eining og fjölbreytni kirkjunnar grundvallast á samfélagi heilagrar þrenningar.

24.  Það eru bönd samfélagsins sem viðhalda einingu og styðja fjölbreytni. Samfélag við Guð og aðra í trúnni er staðfest í einni skírn sem svar við postullegri predikun; í sameiginlegri játningu postullegrar trúar; í sameiginlegri máltíð sem byggir upp einn líkama Krists; og í einni þjónustu sem helguð er með bæn og yfirlagningu handa. Þessi eining birtist einnig sem samfélag í kærleika og ber það með sér að kristnir menn eru bundnir hver öðrum í einingarbandi með gagnkvæmri ábyrgð, sameiginlegum ávöxtum andans og þeirri skyldu að deila með sér efnislegum gæðum. Þegar í Postulasögunni getum við greint þessi bönd: “Þeir sem veittu orði hans (Péturs) viðtöku voru skírðir… Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar… Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.” (Post.2:41 og áfram)

25.  Í frásögn Postulasögunnar nýtur þetta samfélag postullegrar þjónustu. Upp er dregin mynd af því hvernig þessi þjónusta fóstrar ríkulega fjölbreytni en viðheldur á sama tíma einingunni. Upp er dregin mynd af því þegar postularnir Pétur og Páll taka þá róttæku ákvörðun að skíra heiðingjana. Þegar hætta er á klofningi er sú ákvörðun staðfest með því að kalla saman til kirkjuþings (sjá Post.15). Hér sést ljóslega hlutverk hinna postullegu leiðtoga og staða þeirra á kirkjuþingum.

26.  Slíkum skilningi á samfélagi kristinna manna hefur verið lýst á eftirfarandi hátt:

Eining kirkjunnar sem er gefin í Kristi og rótfest í hinum þríeina Guði verður að veruleika í hinu boðaða orði, í sakramentunum og í þjónustunni sem stofnað er til af Guði og veitt í gegnum vígsluna. Hún er lifandi veruleiki bæði í einingu trúarinnar sem við vitnum sameiginlega um og játum og kennum, og í einingu vonar og kærleika sem örvar okkur til einingar í skuldbundnu samfélagi. Eining þarfnast sýnilegs ytra forms sem getur umfaðmað innri sundurgerð og andlega fjölbreytni svo og sögulegar breytingar og þróun. Þannig er eining þess samfélags sem spannar alla tíma og staði og er kallað til að bera vitni og þjóna heiminum.[5]

27.  Þegar í Nýja testamentinu er rætt um klofning meðal kristinna manna (1.Kor.1:11-13, 1.Jóh. 2:18-19). Trúin skyldar kirkjur sem ekki standa á sama grunni af sögulegum ástæðum eða eru aðskildar af ásetningi, til að vinna að og biðja fyrir endurnýjun sýnilegrar einingar og til að þroska andlegt samfélag þeirra. Kirkjan hefur fyrir sjónum sér eininguna sem markmið allrar sköpunar (Ef.1), þegar allur heimurinn verður sættur við Guð (II.Kor.5). Samfélag er þess vegna ávöxtur endurlausnarinnar og tilheyrir því hinni komandi öld þegar Guðsríkið kemur í fyllingu sinni. Kristnir menn geta aldrei umborið sundrungu. Þeir eru skuldbundnir, ekki eingöngu til að vernda og viðhalda, heldur einnig til að hvetja og hlynna að samheldni eins og frekast er unnt milli og innan kirknanna.28Samfélag af slíkum toga á sér margar hliðar. Það felur í sér samkomulag um trúaratriði ásamt sameiginlegri þjónustu sakramentanna, stutt af einingu í kirkjulegri þjónustu og sameiginlegri ráðgjöf í málefnum trúar, lífs og vitnisburðar. Þessi samvinna og samfélag verður e.t.v. að finna sér stað í lögum og reglugerðum kirkjunnar. Til fullnustu samfélagsins verður að fylgja þessu sýnilega lífi kirkjunnar staðfast andlegt samneyti, vöxtur í einum hug, gagnkvæm umhyggja og áhugi á einingu (Fil.2:2).

III  Það sem sameinar okkur í trúnni

29.  Anglíkanskir menn í Bretlandi og á Írlandi og lúterskir menn á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum hafa aldrei fordæmt kirkjur hver annars og hafa aldrei skilið að skiptum formlega. Samt er nánara og dýpra samband þessara kirkna örugglega æskilegt. Það virðist nú vera mögulegt án þess að hverfa frá þeirri heilbrigðu og gjöfulu fjölbreytni sem hefur þróast í gegnum tíðina hvað varðar iðkun trúarinnar og boðun hennar. Anglíkanskar kirkjur hafa hneigst til að leggja áherslu á mikilvægi guðsþjónustulífs til tjáningar trúarinnar. Lúterskir menn hafa að vísu ekki afneitað þessu, en hafa lagt meira upp úr trúfræðilegum játningum. Báðir aðilar sjá samt sem áður lögmál bænar og lögmál trúar (lex orandi og lex credendi) sem náskyld fyrirbæri. Ágsborgarjátningin og Trúargreinarnar 39 urðu til undir mismunandi kringumstæðum til að fullnægja mismunandi þörfum, og þær gegna ekki sama hlutverki í lífi kirknanna. Í þessum játningum er margt sett fram á sama hátt og þær vitna báðar um trú kirkjunnar í gegnum aldirnar. Með því að byggja á þessum grunni hafa samkirkjuleg tengsl nú á dögum hjálpað á áhrifaríkan hátt að svara vissum þrálátum spurningum, og þar með dregið fram í dagsljósið nákvæmar en áður að hve miklu leyti við höfum sama skilning á eðli og hlutverki kirkjunnar sem og grundvallaratriðum trúarinnar. Við erum kölluð til að treysta samfélagið, stíga ný skref í áttina að sýnilegri einingu, og til nýrrar samstöðu að því marki að bera sameiginlega vitni í orði og verki einum Drottni, einni trú og einni skírn.

30.  Til að ná þessu marki höfum við sett fram það efnislega samkomulag um trúaratriði sem er á milli okkar. Hér byggjum við á Skírn, kvöldmáltíð og prestsþjónustu (Lima-skýrslan) og opinberum viðbrögðum kirkna okkar við þeim texta. Við byggjum líka á fyrri tilraunum til að skýra eðli og umfang þess samkomulags sem er milli anglíkanskra og lúterskra kirkna. Þar má m.a. finna Pullach-skýrsluna frá 1973 [1], Helsinki-skýrsluna frá 1983 [2], Cold Ash-skýrsluna frá 1983 [3], Afleiðingar fagnaðarerindisins frá 1988 [4], Meissen-yfirlýsinguna frá 1988 [5] og Niagara-skýrsluna frá 1988 [6]. Allir þessir textar vitna um umtalsverða einingu um trúaratriði milli kirkjudeilda okkar. Við höfum ausið af innsæi þessara texta við gerð þessa samkomulags um trúarefni. Ennfremur höfum við notast að nokkru leyti við niðurstöður samræðna á milli anglíkönsku kirknanna og rómversk-kaþólsku kirkjunnar annars vegar og rómversk-kaþólsku kirkjunnar og lúterskra kirkna hins vegar.

31.  Sú samstaða í trúarefnum sem kemur fram í áðurnefndum textum var staðfest í ályktun Lambeth-ráðstefnunnar 1988. Þar kemur fram að ráðstefnan:

…viðurkenni að kirkju Jesú Krists sé að finna í samfélagi lúterskra manna sem okkar eigin, á grundvelli þeirrar miklu samstöðu sem náðst hefur í alþjóðlegum, svæðisbundnum og þjóðlegum samræðum milli anglíkanskra og lúterskra kirkna og í ljósi samfélags um Orðið og sakramentin sem reynsla er af í hefð beggja kirkna [7].

Hliðstæða staðfestingu er að finna í ályktun áttunda þings Lúterska heimssambandsins í Curitiba í febrúar 1990:

Þetta þing ályktar að Lúterska heimssambandið endurnýi það markmið sitt að taka upp fullt samfélag við anglíkanskar kirkjur og það hvetur aðildarkirkjur sínar að stíga nauðsynleg skref í átt að þessu markmiði… Lúterska heimssambandið telur þakkarverð þau skref að samfélagi kirkna sem aðildarkirkjur hafa nú þegar stigið með anglíkönskum kirkjum í einstökum þjóðríkjum eða svæðum og hvetur þær til að halda áfram [8].

32  Hér drögum við saman helstu trúaratriði og venjur sem við eigum sameiginlega:

a.  Við viðurkennum að reglurit Gamla og Nýja testamentisins séu fullnægjandi, innblásnar og ákvarðandi heimildir og vitnisburður, spámannlegur og postullegur, um opinberun Guðs í Jesú Kristi. [9] Lestur Ritninganna á móðurmáli fólks er hluti af almennum guðsþjónustum okkar. Við trúum því að í Ritningunum, sem Orði Guðs og vitnisburði um fagnaðarerindið, sé eilíft líf boðið öllu mannkyni og að þær innihaldi allt það sem er nauðsynlegt til hjálpræðis.

b. Við trúum að vilji Guðs og boðorð séu nauðsynleg kristinni boðun, trú og lífi. Boðorð Guðs hvetja okkur til að elska Guð og náungann, og að lifa og þjóna honum til lofs og dýrðar. Á sama tíma afhjúpar boðorð Guðs syndir okkar og stöðuga þörf á náð hans.

c.  Við trúum á og boðum fagnaðarerindið um að í Jesú Kristi elski Guð og endurleysi heiminn. Við “höfum sama skilning á náð Guðs sem réttlætir, m.ö.o. að við erum talin réttlát og réttlætt fyrir Guði aðeins af náð fyrir trú að tilstuðlan Drottins okkar og frelsara Jesú Krists, en ekki vegna eigin verka eða ágætis… Báðar hefðirnar staðfesta að réttlæting hljóti að leiða til góðra verka; sönn trú leiðir til kærleika” [10]. Við öðlumst Heilagan anda sem endurnýjar hjörtu okkar og býr okkur og kallar til góðra verka. [11] Eins og réttlæting og helgun eru tvær hliðar á sama guðlega verki þá eru lifandi trú og kærleikur óaðskiljanleg í lífi trúaðs manns. [12]

d.  Við játum trú kirkjunnar í gegnum aldirnar eins og hana er að finna í Níkeujátningunni (Nikæno-Constantinopolitanum) og Postullegu trúarjátningunni og játum grundvallarkenningar um þrenninguna og Krist sem þessar játningar vitna um. Það er að segja við trúum að Jesús frá Nasaret sé sannur Guð og sannur maður og að Guð sé einn Guð í þremur persónum, Föður, Syni og Heilögum anda. [13] Þessi trú er skilmerkilega sett fram í Trúargreinunum 39 [14], og í Ágsborgarjátningunni [15].

e.  Við játum og iðkum hina postullegu trú í guðsþjónustuhefðinni. Við viðurkennum að í guðsþjónustunni meðtökum við hjálpræðið í Kristi; ennfremur mikilvægi hennar við að mynda samsinni trúaðra (consensus fidelium). Við gleðjumst yfir hve “hin sameiginlega hefð okkar í andlegu lífi, guðsþjónustu og sakramentum” hefur gefið okkur lík guðsþjónustuform, textaraðir, sálma, tónsöng og bænir. Við erum undir áhrifum frá sömu endurnýjun í helgisiðum og ólíkum tjáningarformum úr mismunandi menningarlegu samheng i[16].

f.  Við trúum að kirkjan sé stofnuð og henni viðhaldið af hinum þríeina Guði fyrir frelsunarverk Guðs í orði og sakramentum. Við trúum því að kirkjan sé tákn, tæki og frumgróði ríkis Guðs. En við viðurkennum einnig að hún þarfnast stöðugrar siðbótar og endurnýjunar [17].

g.  Við trúum því að fyrir skírn í vatni í nafni hins þríeina Guðs, gefi Hann skírnþega hlutdeild í dauða og upprisu Jesú Krists og taki hann í eina, heilaga almenna og postullega kirkju, og gefi honum náðargjöf nýs lífs í Heilögum anda. Þar sem okkar kirkjur iðka og leggja áherslu á barnaskírn þá tökum við einnig alvarlega uppfræðslu skírðra barna svo þau þroskist til fylgdar við Krist [18]. Í hefð okkar allra fylgir skírninni sá siður að ferma. Við viðurkennum tvenns konar iðkun fermingarinnar í kirkjum okkar þar sem báðar eiga sér fyrirmynd frá fyrri öldum; í anglíkönsku kirkjunum annast biskupinn ferminguna; á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum er það prestur á hverjum stað sem annast hana. Í öllum kirkjum okkar felur fermingin í sér ákall til hins þríeina Guðs og endurnýjun skírnarheitisins. Þá er sú bæn einnig beðin að fermingarþeginn megi hljóta styrk nú og að eilífu, fyrir endurnýjun skírnarnáðarinnar.

h.  Við trúum því að líkami og blóð Krists séu sannarlega nærverandi, þeim útdeilt og þau meðtekin í formi brauðs og víns í heilagri kvöldmáltíð. Á þennan hátt meðtökum við líkama og blóð Krists hins krossfesta og upprisna og í honum fyrirgefningu syndanna ásamt annarri umbun sem við hljótum af píslum hans [19]. Minning kvöldmáltíðarinnar er ekki aðeins fólgin í að minnast einhvers sem er liðið og þýðingar þess, heldur er hún kröftug boðun kirkjunnar á máttarverkum Guðs [20]. Enda þótt við séum þess ekki umkomin að fórna Guði verðugri fórn, þá gefur Kristur okkur hlutdeild í sjálfsfórn sinni fyrir Föðurinn; hinni einu, fullkomnu og nægjanlegu fórn sem hann hefur fært fyrir okkur öll. Í kvöldmáltíðinni er Guð sjálfur að verki og gefur líkama Krists líf og endurnýjar sérhvern lim hans [21]. Í kvöldmáltíðinni er kirkjan endurnýjuð, nærð, styrkt í trú og von, í vitnisburði og þjónustu hins daglega lífs. Þar höfum við nú þegar fyrirmynd að hinni eilífu gleði í ríki Guðs [22].

i.  Við trúum því að allir sem tilheyra kirkjunni séu kallaðir til að taka þátt í hinu postullega hlutverki. Sérhver skírður maður hefur þess vegna þegið margvíslegar gjafir og þjónustu af Heilögum anda. Hann er kallaður til að bjóða sjálfan sig að “lifandi fórn” og að biðja fyrir kirkjunni og frelsun heimsins. [23] Þetta er hinn almenni prestdómur alls lýðs Guðs og köllun til hlutverks og þjónustu (I.Pét.2:5).

j.  Við trúum því að innan samfélags kirkjunnar séu vígðir þjónar til að þjóna gjörvöllum lýð Guðs. Við teljum að þjónusta orðs og sakramenta sé stofnuð af Guði sem gjöf til kirkju sinnar [24]. Eins og allir kristnir menn tengjast vígðir þjónar bæði prestdómi Krists og prestdómi kirkjunnar [25]. Þessi eining vígðra kennimanna kemur fram í þjónustu orðs og sakramenta. Í lífi kirkjunnar hefur þessi eining tekið á sig margvíslegar myndir. Hin þrefalda skipting í biskup, prest og djákna var alls ráðandi í kirkjunni fyrstu aldirnar og enn eru margar kirkjur sem viðhalda þessum þjónustustörfum, þó oft aðeins að hluta til. “Þá getur hin þrefalda þjónusta biskups, öldungs (prests) og djákna stuðlað að því að tjá þá einingu, sem vér leitum að og einnig verið leiðin að því marki” [26].

k.  Við trúum að þjónusta hirðis og tilsjónarmanns (episkope) sem starfar á persónulegan, samábyrgan og félagslegan hátt, sé nauðsynleg til að vitna um og varðveita einingu og postullegt einkenni kirkjunnar [27]. Ennfremur er biskupsþjónustunni viðhaldið og hún notuð sem tákn um þá ætlun okkar að tryggja undir stjórn Guðs samfellt líf kirkjunnar í postullegu lífi og vitnisburði. Af þessum ástæðum hafa kirkjur okkar kosið að viðhalda þeim sið að velja einstakling til biskupsembættis [28].

l.  Við eigum sameiginlega von um að Guðsríkið komi í fyllingu sinni. Við trúum því að í þessu hinsta samhengi séum við kölluð til að vinna að framgangi réttlætis, leita friðar og láta okkur annt um hinn skapaða heim. Skyldur Guðsríkisins eiga að stjórna lífi okkar í kirkjunni og viðhorfum okkar til heimsins. Í kristinni trú felst að Guð hefur hefur samið frið við heiminn fyrir Jesú “með blóði (hans) úthelltu á krossi (Kól.1:20) og þannig markað þungamiðju þar sem fjölskylda mannsins gæti orðið eitt” [29].

33.  Þessi samantekt ber vitni um einingu í trú og kenningu. Enda þótt hún geri ekki þá kröfu til hvorrar hefðar fyrir sig að hún viðurkenni sérhverja framsetningu trúarsetninga sem einkennir hina, þá gerir hún samt þá kröfu að horfst sé í augu við og sigrast á þeim erfiðleikum sem enn eru í vegi nánara samfélags.

IV Biskupsþjónustan og postullegt einkenni kirkjunnar

34.  Gamalt vandamál samfara biskupsþjónustunni er tengsl hennar við vígsluröð. Á siðaskiptatímanum vígðu allar kirkjur okkar biskupa (stundum nefndir súperintendentar í staðinn fyrir biskupar) á þá biskupsstóla sem fyrir voru í rómversk-kaþólsku kirkjunni. Með þessu vildu þær gefa til kynna að þær héldu áfram lífi og starfi hinnar einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju. Sumstaðar var vígsluröð viðhaldið af biskupum en annars staðar, í fáum tilvikum, voru biskupar eða súperintendentar vígðir af prestum á þann hátt sem haldið var að gert hafi verið í frumkirkjunni [1]. Ein afleiðing þessa var skortur á einingu milli kirkna okkar sem hindraði sameiginlegan vitnisburð, þjónustu og hlutverk. Þrátt fyrir að vígsluröð biskupa væri rofin hafa þessar ákveðnu kirkjur alltaf sýnt viðleitni og framtak til að tryggja hina postullegu hefð kirkjunnar, sem kirkju fagnaðarerindisins þjónað af biskupum. Saga þessara kirkna sýnir trúmennsku þeirra við postullega hefð kirkjunnar. Á undanförnum hundrað árum hafa allar okkar kirkjur fundið fyrir vaxandi þörf til að sigrast á þessum vanda, svo hægt væri að tjá einum rómi hlutdeild í lífi hinnar einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju.

35.  Vegna áðurnefndra vandamála verður nú útlistaður í lengra máli skilningur á postullegu einkenni allrar kirkjunnar, sérstaklega hvað varðar postullega þjónustu, órofa vígsluröð biskupa og sögulega vígsluröð sem tákn. Allt tengist hér hvað öðru.

A.   Postullegt einkenni allrar kirkjunnar

36.  “Í trúarjátningunni játum vér að kirkjan sé postulleg. Kirkjan lifir í sambandi við postulana og boðun þeirra. Sami Drottinn og sendi postulana, er áfram nálægur í kirkjunni. Heilagur andi viðheldur kirkjunni í postullegri hefð uns sagan fullkomnast í Guðs ríki. Postulleg hefð í kirkjunni merkir, að ákveðin einkenni kirkjunnar frá tímum postulanna vara við, svo sem vitnisburður um postullega trú, boðun og fersk túlkun fagnaðarerindisins, skírn og altarissakramenti, afhending þjónustunnar milli kynslóða, samfélag í bæn, kærleika, gleði og þjáningu, þjónusta við sjúka og fátæka, eining við nálægar kirkjur og hlutdeild í þeim gjöfum sem Drottinn hefur gefið hverri um sig” [2].

37.  Kirkja nútímans hefur sama hlutverk og postularnir, að færa fagnaðarerindið öllum þjóðum, vegna þess að góðu tíðindin um Jesú Krist eru opinberun á eilífri áætlun Guðs að sætta alla sköpun í Syni sínum. Kirkjan er kölluð til trúmennsku við hinn postullega vitnisburð um líf, dauða, upprisu og upphafningu Drottins síns. Kirkjan þiggur hlutverk sitt og kraftinn til að uppfylla það sem gjöf hins upprisna Krists. Kirkjan er þannig postulleg sem heild. “Að kirkjan er postulleg merkir að hún er send af Jesú til að vera fyrir heiminn, til að taka þátt í hlutverki hans og þar með í verki hans sem sendi Jesú, til að taka þátt í starfi Föður og Sonar í krafti Heilags anda” [3].

38.  Guð, Heilagur andi úthellir gjöfum sínum yfir alla kirkjuna (Ef.:11-13, 1.Kor.12:4-11), og kallar konur og karla, leika og lærða, til að leggja sitt af mörkum til að rækta samfélagið. Þannig tekur öll kirkjan og jafnframt sérhver meðlimur hennar þátt í og leggur sitt af mörkum til boðunar fagnaðarerindisins, með því að sýna af trúmennsku hið óumbreytanlega eðli kirkju postulanna á hverjum stað og tíma. Kirkjan byggir ekki vitnisburð sinn eingöngu á orðum heldur einnig á kærleika meðlima sinna hver til annars. Þá hefur það mikla þýðingu í vitnisburði kirkjunnar að hjálpa þeim þurfandi; hvernig hún ráðstafar fjármunum og öðrum gæðum; hvort hún lifir réttlátu og árangursríku lífi; hvernig hún agar og beitir valdi sínu og hvernig tilbeiðslulífi hennar er háttað. Allt eru þetta tjáningarform sem verða að hafa í brennidepli Krist, hið sanna Orð Guðs, og vakna til lífs fyrir Heilaga anda.

39.  Þannig birtist postulleg vígsluröð fyrst og fremst í postullegri hefð kirkjunnar allrar. Vígsluröðin tjáir að verk Krists er varanlegt svo og framhald þess sem kirkjan á hlutdeild í. [4]

40.  Innan postullegrar hefðar kirkjunnar sem heildar þjónar postulleg vígsluröð sérstöku hlutverki. Hún skerpir hina órofnu hefð kirkjunnar og samfellt líf hennar í Kristi, svo og trúmennsku hennar við orð og verk Jesú Krists eins og þeim var miðlað af postulunum [5]. Vígðir þjónar hafa það sérstaka verkefni að bera þessari hefð vitni og að boða hana ferska og af myndugleik hverri nýrri kynslóð. [6]

B Postulleg þjónusta

41.  Til að næra kirkjuna hefur Guð gefið hina postullegu þjónustu, sem Drottinn sjálfur stofnaði og veitti fyrir postulana. Frumskylda vígðra þjóna er að safna saman og byggja upp líkama Krists með því að boða og kenna Guðs orð, þjóna að sakramentunum og leiða safnaðarlífið í tilbeiðslu, vitnisburði og kærleiksþjónustu. [7] Sá siður að vígja einstakling til ævilangrar þjónustu með bæn, ákalli Heilags anda og yfirlagningu handa minnir kirkjuna á að hlutverk sitt fær hún frá Kristi sjálfum. Þessi siður tjáir líka þann staðfasta ásetning kirkjunnar að sýna trúnað og þakklæti frammi fyrir því verkefni og gjöf. Hin mismunandi hlutverk hinnar einu þjónustu sjást best í uppbyggingu hennar. Hin þrefalda þjónusta biskups, öldungs (prests) og djákna var viðtekið skipulag í frumkirkjunni, enda þótt það breyttist síðar töluvert í tímans rás og er reyndar að þróast enn. [8]

42.  Gjafir Guðs eru fjölbreytilegar. Það kallar á að þær séu skipulagðar þannig að þær auðgi kirkjuna alla og einingu hennar. Þessi fjölbreytni og sá fjöldi mismunandi starfa sem hún fæðir af sér, krefst þjónustu sem skipuleggur. Þetta er þjónusta tilsjónarinnar episkope; að hlúa að öllu lífi safnaðarins, að vera hirðir hirðanna og næra hjörð Krists í samræmi við boð hans í gegnum aldirnar og í samhljóðan við kristna menn á öðrum stöðum. Kirkjan öll þarfnast episkope (tilsjónar) og það hefur grundvallarþýðingu fyrir líf hennar að þessu hlutverki sé sinnt af trúmennsku.

43.  Tilsjón með kirkjunni og hlutverki hennar er sérstök ábyrgð biskupsins. Embætti biskupsins einkennist af þjónustu og samskiptum innan samfélags trúaðra. Ennfremur af þjónustu með því samfélagi við umheiminn. Biskupar predika orðið, hafa umsjón með þjónustunni að sakramentunum og beita aga. Þeir gegna hirðishlutverki fyrir hönd annarra hirða sem tilsjónarmenn og eru tákn um stöðugleika og einingu innan kirkjunnar. Þeir hafa tilsjón og gegna hirðisstarfi á því svæði sem þeir eru kallaðir til. Þeir stuðla að því að kenning kirkjunnar, tilbeiðsla og þjónusta sakramentanna sé postulleg, almenn og ein. Þeir bera þá ábyrgð að vera leiðtogar að kristniboði kirkjunnar. [9] Ekkert þessara verkefna má einangra frá lífi hinnar almennu kirkju.

44.  Þjónusta tilsjónarinnar er persónuleg, samábyrg og samfélagsleg. Hún er persónuleg vegna þess að þannig verður best sýnt fram á nærveru Krists meðal lýðs síns með því að vígja persónu til að boða fagnaðarerindið og kalla söfnuðinn til að þjóna Drottni í einhuga vitnisburði. Þjónustan er samábyrg: Í fyrsta lagi kallar biskup saman þá sem eru vígðir til þjónustu og tjá þarfir safnaðarins. Í öðru lagi er þjónusta tilsjónarinnar samábyrg vegna þess að biskupar tengja samfélagið í umdæmi sínu kirkjunni um víða veröld og hina almennu kirkju umdæmi sínu. Þá er þjónusta biskupsins samfélagsleg vegna þess að starf vígðra þjóna byggist á lífi safnaðarins og þeir þurfa á virkri þátttöku safnaðarins að halda til að uppgötva vilja Guðs og leiðsögn Heilags anda. Í flestum kirkjum okkar gerist þetta í samvinnu vígðra og óvígðra á kirkjuþingum. Biskupar ásamt öðrum þjónum og söfnuðinum í heild bera ábyrgð á því að valdi þjónustunnar í kirkjunni sé skipað með reglulegum hætti. [10]

45.  Hinir persónulegu, samábyrgu og samfélagslegu þættir tilsjónarstarfsins koma fram á hverjum stað og á hverju svæði, svo og í hinni almennu kirkju.

C.  Biskupsembættið í þjónustu postullegrar vígsluraðar

46.  Grundvöllur þess að kirkjan sé trú hinum postullega arfi er fyrirheit Drottins og nærvera Heilags anda sem vinnur sitt verk í kirkjunni allri. Hina órofa þjónustu tilsjónarstarfsins ber að skilja í ljósi þess að þráður hins postullega lífs og starfs kirkjunnar allrar er óslitinn. Hin postullega vígsluröð biskupsembættisins setur í brennidepil með sýnilegum og persónulegum hætti hinn postullega arf hinnar almennu kirkju.

47.  Samfella hinnar postullegu vígsluraðar er táknuð í vígslu biskups. Í þessari athöfn safnast lýður Guðs saman til að biðja fyrir og staðfesta val biskupsefnis. Við yfirlagningu handa af hálfu þess biskups sem framkvæmir vígsluna ásamt öðrum vígsluvottum, er kirkjan öll að ákalla Guð í trausti fyrirheita hans um að úthella heilögum anda yfir sáttmálslýð hans (Jes.11:1-3, sbr. Veni Creator Spiritus og sálm 329 í sálmabók, “Kom helgur andi”, aths. þýð.). Hin biblíulega athöfn að leggja hendur yfir einhvern er rík af merkingu. Hún getur þýtt (meðal annars) samsömun, að einhverjum sé falið hlutverk eða hann boðinn velkominn. Þessi athöfn er notuð í margvíslegu samhengi: Við fermingu, aflausn, lækningu og vígslu. Annarsvegar er yfirlagning handa með bæn viðurkenning og staðfesting á náðargjöf sem Guð hefur þegar gefið; hinsvegar er þessi athöfn viðhöfð þegar einhver er valinn til sérstakrar þjónustu. Hver tilgangur eða merking handayfirlagningar er ræðst af bæn eða yfirlýsingu sem fylgir henni. Hvað biskupsembættið varðar þá er vígsla í bæn og yfirlagningu handa athöfn sem postularnir framkvæmdu og kirkjan hefur viðhaldið í gegnum aldirnar.

48.  Við biskupsvígslu táknar handayfirlagningin fernt: Í fyrsta lagi vitnar hún um traust kirkjunnar á trúfesti Guðs við lýð sinn og á fyrirheitinu um að Kristur er nálægur kirkju sinni fyrir mátt Heilags anda til enda veraldarinnar; í öðru lagi táknar yfirlagning handa vilja kirkjunnar að vera trú frumkvæði Guðs og gjöfum hans með því að lifa áfram í hinni postullegu trú og hefð; í þriðja lagi táknar handayfirlagning margra biskupa að þeir og kirkjur þeirra meðtaka hinn nýja biskup og að kirkjur þeirra séu hluti hinnar almennu kirkju[11]; og í fjórða lagi þá táknar þessi athöfn að þjónusta biskupsins og kennivald hennar er flutt yfir á nýjar herðar í samræmi við vilja Guðs og markmið. Þannig þiggur biskup við vígslu sína tákn um guðlega velvild og varanlegt umboð til að leiða kirkju sína í sameiginlegri trú og postullegu lífi allra kirkna.

49.  Sú órofa hefð sem táknuð er í biskupsvígslunni hlýtur að tengjast lífi og vitnisburði um aldir í því biskupsdæmi sem biskupinn er kallaður til. Í aðstæðum okkar kirkna þar sem biskupsdæmin eiga sér langa sögu, felst þessi samfella ekki aðeins í persónu biskupsins. Sú staðreynd að kirkjur okkar hafa viðhaldið þeirri skipan biskupsdæma og prestakalla sem fyrir var endurspeglar þá viðleitni þeirra að viðhalda hinu postullega starfi að boðun orðsins og sakramentanna í hinni almennu kirkju.

D. Órofa biskupsvígsla sem tákn

50.  Kirkjan í heild sinni er tákn fyrir ríki Guðs; [12] vígslan er tákn um trúmennsku Guðs við kirkju sína, sérstaklega í tengslum við tilsjón með starfi hennar. Að vígja biskup í órofinni vígsluröð (þ.e.a.s. í vígsluröð sem ætlað er að sé komin frá postulunum sjálfum) er einnig tákn. [13] Með þessu sýnir kirkjan að henni er umhugað um að þráðurinn haldist óslitinn í öllu hennar lífi og starfi. Að auki styrkir vígsluröðin þá ætlun kirkjunnar að varðveita varanlega eiginleika kirkju postulanna. Svo að merking þessa tákns verði að fullu ljós er nauðsynlegt að í vígsluathöfninni sé almenn játning á trú kirkjunnar og útskýring á því hlutverki sem hinn nýi biskup er kallaður til. Á þennan hátt er hin sögulega vígsluröð sem tákn sett í órofa samhengi við samfellda boðun fagnaðarerindis Krists og hlutverk kirkju hans.

51.  Að nota tákn hinnar órofa vígsluraðar tryggir þó ekki að hver einstök kirkja sýni á allan hátt trúmennsku gagnvart postullegri trú, lífi og starfi. Klofningur hefur komið upp milli kirkna þar sem vígsluröðin var órofin. Og hún tryggir ekki heldur að biskup sé trúr í þjónustu sinni. Engu að síður er sú staðreynd að þetta tákn hefur reynst varanlegt, stöðug áminning um trúmennsku og einingu, og hvatning til að vitna um og gera að veruleika það sem varir við í kirkju postulanna. [14]

52.  Það er ekki aðeins ein hefð sem brýnir hina almennu kirkju að vera trú sinni postullegu köllun. Þess vegna er kirkju sem hefur varðveitt tákn hinnar órofa vígsluraðar, frjálst að viðurkenna biskupsþjónustu í kirkju sem hefur varðveitt biskupshefðina með prestlegri vígslu í einstökum tilvikum á tímum siðaskiptanna. Á sama hátt er kirkju sem hefur varðveitt hefðina gegnum þess háttar vígsluröð frjálst að taka upp samskipti með gagnkvæmri þátttöku í biskupsvígslum við kirkju sem hefur varðveitt órofa vígsluröð biskupa. Með þeim hætti gætu slíkar kirkjur virt tákn órofa vígsluraðar án þess að afneita postullegu einkenni sínu [15].

53.  Guðfræðilega hefur gagnkvæm viðurkenning á kirkjum okkar og þjónustuhlutverki þeirra forgang fram yfir tákn handayfirlagningarinnar í órofa vígsluröð. Að þetta tákn sé aftur upp tekið merkir ekki að verið sé að fordæma starf þeirra kirkna sem áður fyrr notuðu það ekki. Hér er frekar um að ræða aðferð til að opinbera einingu og hefð kirkjunnar á öllum tímum og á öllum stöðum.

54.  Í þeim mæli sem kirkjur okkar hafa verið aðskildar hefur þær allar skort eitthvað af þeirri fyllingu sem Guð vill lýð sínum til handa (Ef.1:23 og 3:17-19). Með því að taka höndum saman og njóta þjónustu biskupsembætta sem hafa náð sáttum og viðurkennt hvert annað, verða kirkjur okkar trúrri köllun sinni og einnig meðvitaðri um nauðsyn endurnýjunar. Með því að deila lífi og þjónustu í nánari og augljósari einingu, erum við styrkt í að vinna áfram að þjónustu Krists fyrir heiminn.

E. Nýr vettvangur

55.  Sökum þess hve róttækt samkomulag okkar er og tilgreint er í ofangreindum liðum, er það ljóst að við höfum náð nýjum áfanga á samferð okkar í trúnni. Við höfum orðið sammála um eðli og tilgang kirkjunnar (II. hluti), um trú hennar og kenningu (III. hluti), sérstaklega er tekur til hinnar postullegu hefðar allrar kirkjunnar, um postullegt hlutverk innan hennar og um biskupsembættið í þjónustu kirkjunnar (IV. hluti).

56 Á grundvelli þessa samkomulags trúum við;

  • að kirkjur okkar eigi af djörfung að viðurkenna hver aðra og ganga þar með til nýs samfélags;
  • að sérhver kirkja í heild sinni hafi viðhaldið órofa postullegri hefð vitnisburðar og þjónustu (IV A);
  • að sérhverri kirkju hafi verið miðlað postullegri þjónustu orðsins og sakramentanna með bæn og yfirlagningu handa (IV B);
  • að sérhver kirkja hafi viðhaldið skipulagðri vígsluröð biskupa innan þjónustuhefðar sinnar, með áherslu á vígslu biskupa í sögu og samhengi hinna fornu biskupsdæma (IV C).

57. Í ljósi alls þessa þykir okkur að tími sé til kominn að allar kirkjur okkar staðfesti saman gildi og notkun tákns hinnar sögulegu órofa vígsluraðar biskupa (IV D). Þetta táknar að þeim kirkjum sem ekki hafa um skeið notað þetta tákn, er nú frjálst að viðurkenna gildi þess. Þær ættu einnig að meðtaka það án þess að afneita sinni eigin postullegu hefð. Þetta merkir ennfremur að þeim kirkjum sem hafa notað tákn hinnar órofa vígsluraðar er frjálst að viðurkenna veruleik biskupsembætta og postullegs arfs þeirra kirkna sem ekki hafa órofa vígsluröð.

 

V.  Í átt að nánari einingu

A . Sameiginleg yfirlýsing

58. Við mælum með að kirkjur okkar sameinist um eftirfarandi yfirlýsingu:

PORVOO YFIRLÝSINGIN

Á grunni sameiginlegs skilnings á eðli og tilgangi kirkjunnar, samkomulags um trúargrundvöll og um biskupsembættin í þjónustu hins postullega arfs kirkjunnar, gerum við eftirtaldar kirkjur með okkur samkomulag:

Danska þjóðkirkjan, Enska kirkjan, Evangelísk-lúterska kirkjan í Eistlandi, Evangelísk-lúterska kirkjan í Finnlandi, Íslenska þjóðkirkjan, Írska kirkjan, Evangelísk-lúterska kirkjan í Lettlandi, Evangelísk-lúterska kirkjan í Litháen, Norska kirkjan, Skoska biskupakirkjan, Sænska kirkjan, Kirkjan í Wales Samkomulag okkar og stefna er sem hér segir:

Við lýsum því yfir að sérhver áðurnefndra kirkna heyrir til hinni einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju Jesú Krists og á að sönnu þátt í hlutverki alls lýðs Guðs.Við lýsum því yfir að sérhver áðurnefndra kirkna heyrir til hinni einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju Jesú Krists og á að sönnu þátt í hlutverki alls lýðs Guðs.

Við lýsum yfir að allar kirkjurnar játa sameiginlega hina postullegu trú.

Við lýsum yfir að vígð þjónusta sérhverrar þessara kirkna er gefin af Guði sem farvegur náðar hans. Í þeirri þjónustu felst ekki eingöngu innri köllun Heilags anda, heldur einnig boð Krists til starfa í gegnum líkama hans, kirkjuna.

Við lýsum yfir að biskupsembættið er virt meðal allra kirknanna.

Ennfremur að það er sýnilegt tákn, rækt og viðhaldið til að tjá og þjóna einingu kirkjunnar og órofa hefð postullegs lífs, boðunar og starfs.að lifa saman í boðun og þjónustu, að biðja hver fyrir og með öðrum, og deila kjörum;

  • að bjóða meðlimum sérhverrar kirkju í okkar hópi að þiggja sakramenti og aðra þjónustu hjá hverri kirknanna sem er;
  • að líta á skírða meðlimi allra kirknanna í okkar hópi sem meðlimi okkar eigin;
  • að bjóða söfnuði útlendinga að taka þátt í lífi innlendrar kirkju til gagnkvæms þroska;
  • að bjóða einstaklingum sem biskup í einhverri kirkna okkar hefur vígt til þjónustu biskups, prests eða djákna, – að þjóna annarri kirkju án endurvígslu, í samræmi við þær reglur sem þar eru í gildi hverju sinni;að bjóða biskupum annarra kirkna í okkar hópi að taka undir eðlilegum kringumstæðum þátt í handayfirlagningu við biskupsvígslu, enda tákni það einingu og órofa hefð kirkjunnar;að vinna að sameiginlegum skilningi á þjónustu djákna;
  • að stofna til viðeigandi faglegs og kirkjulegs samráðs um mikilvæga þætti trúar og skipulags, lífs og starfs;
  • að hvetja til samráðs milli fulltrúa kirkna okkar, efla lærdóm svo og að skiptast á hugmyndum og upplýsingum um guðfræðileg og kennimannleg efni;
  • að stofna hóp til eflingar samskipta og til framkvæmdar á þessu samkomulagi.

B . Helgihald

Við mælumst til þess að þetta samkomulag svo og hin nýju tengsl okkar verði hátíðleg haldin og staðfest við þrjár hátíðamessur þar sem allar kirkjurnar eigi fulltrúa. Þessi hátíðahöld væru merki um;

  • að kirkjurnar viðurkenndu fúslega hver aðra,sameiginlegan ásetning í trú og helgihaldi hinnar almennu kirkju,
  • að leikir og lærðir meðlimir sérhverrar þessara kirkna væru velkomnir sem okkar eigin,
  • þá skuldbindingu okkar að rækja saman trúboð.

Í þessum hátíðahöldum fælist:

  •  Upplestur og undirritun Porvoo-yfirlýsingarinnar. Bænagjörð með þökk fyrir hið liðna og ákalli vegna framtíðarinnar, þar sem lúterskir og anglíkanskir menn bæðu hver fyrir öðrum.
  • Að skipst yrði á friðarkveðjunni.
  • Sameiginleg altarisganga.
  • Önnur tákn í mæltu máli og helgihaldi um líf okkar í einingu.

C.  Samkirkjuleg markmið í víðara samhengi

60.  Við fögnum samkomulagi okkar og þeirri sýnilegu einingu sem það gerir mögulegt. Við teljum það vera skref í átt að þeirri raunverulegu einingu sem allar kirkjur í hinni samkirkjulegu (ekúmenísku) hreyfingu keppa að. Við sjáum þessa viðleitni til nánara samfélags ekki sem tilgang í sjálfu sér, heldur sem leit að víðtækari einingu. Þessi leit felur í sér;

að sérhver kirknanna styrkir böndin við hinar kirkjurnar jafnt á heimaslóð, sem á þjóðlegu og alþjóðlegu sviði, nánari tengsl innan og milli beggja kirkjudeildanna á heimsvísu, og stuðning við einingarviðleitni milli anglíkanskra og lúterskra kirkna annars staðar í heiminum, sérstaklega í Afríku og Norður-Ameríku þar sem merkilegt samstarf hefur þróast, að þróa áfram þau tengsl sem eru við aðrar kirkjudeildir, sérstaklega þær sem við eigum í samræðum við um einingarmál eða höfum þegar gert við samninga þar að lútandi,

að styrkja þau samkirkjulegu ráð sem starfa á heimaslóð, og í þjóðlegu eða alþjóðlegu samhengi, svo sem Kirknasamband Evrópu og Alkirkjuráðið.

61.  Hinn sameiginlegi arfur og köllun kirkna okkar eins og hefur verið lýst í þessu samkomulagi, gerir okkur ljósar skyldur okkar gagnvart einingarviðleitni annarra. Um leið sjáum við þörf okkar á að auðgast af innsýn og reynslu annarra kirkna með aðrar hefðir, frá öðrum heimshlutum. Ásamt þeim erum við reiðubúin að vera verkfæri Guðs í hjálpræðisverki hans og sáttargerð sem nær til alls mannkyns og allrar skepnu.

 Tilvitnanir

Formáli formanna:

[1]Listi yfir þessar kirkjur er á bls. 27.
[2]Sbr. C. Hill,”Existing agreements between our Churches” í Essays on Church and Ministry in Norhern Europe, en það er viðbætir við fullnaðarútgáfu Porvooskýrslunnar er nefnist Together in Mission and Ministry. The Porvoo Common Statement with Essays on Church and Ministry in Northern Europe, London 1993.
[3]Sjá gr.30 hér að neðan.
[4]Sjá neðanmálsgr.2 að ofan.

Kafli I

[1]Sbr. neðanmálsgrein 2. í formála.
[2]Skrá yfir helstu texta einingarviðræðna lúterskra og biskupakirkna fylgir sem viðauki við fullnaðarskýrslu Porvoo-viðræðnanna.
[3]Kairos er grískt orð og þýðir í þessu samhengi hinn rétti tími, eða að tíminn sé fullnaður.

Kafli II

[1]Sjá W.A. Norgren og W.G. Rusch (ritstj.), Implications of the Gospel. Lutheran-Episcopal Dialogue, Series III (Minneapolis og Cincinnati, 1988) (LED III), kafli III, greinar 33-37 og 51-57.
[2]Skírn, máltíð Drottins, þjónusta (Limaskýrslan, þýð. Einar Sigurbjörnsson, Kirkjuráð 1984), (Lima), Þjónusta, gr.5.
[3]Roman Catholic / Lutheran Joint Commission, Ways to community, (Geneva, 1981), gr.9.
[4]Sama, gr.34.
[5]Roman Catholic / Luteran Joint Commission, Facing Unity. Models Forms and Phases of Catholic-Lutheran Church Fellowship (n.pl. 1985), gr.3.

Kafli III
[1] Anglican-Lutheran International Conversations. The Report of the Conversations 1970-1972 authorized by the Lambeth Conference and the Lutheran World Federation (London, 1973) (Pullach), gr.17-82.
[2] Anglican-Lutheran Dialogue. The Report of the European commission, Helsinki, ágúst-september 1982 (London 1983) (Helsinki), gr.17-51.
[3] Anglican-Lutheran Relations. Report of the Anglican-Lutheran Joint Working Group. Cold Ash, Berkshire, England 28.nóv.-3.des. 1983 (London og Genf 1983).
[4] LED III.
[5] The Meissen Common Statement. On the Way to Visible Unity. Meissen, 18.mars 1988 (í The Meissen Agreement: Texts -CCU Occasional Paper nr.2., 1992) (Meissen), gr.14-16.
[6] Anglican-Lutheran International Continuation Committee, The Niagara Report. Report of the Anglican-Lutheran Consultation on Episcope. Niagara Falls, september 1987 (London, 1988), gr.60-80.
[7] The Truth Shall Make You Free: The Lambeth Conference 1988, (London 1988), bls.204: ályktun 4, gr.4.
[8] Ég hef heyrt óp lýðs míns: ályktun Lúterska heimssambandsins í Curitiba, Brasilíu, 29. janúar – 8. febrúar 1990, bls.107. Sjálf yfirlýsing þessa áttunda þings Lúterska heimssambandsins er til í íslenskri þýðingu sr.Halldórs Reynissonar og er að finna í heftinu Prestastefnan 1991.
[9] Pullach, gr.17.
[10] Meissen, gr.15, (vi), Helsinki gr.20.
[11] All Under One Christ. Statement on the Augsburg Confession by the Roman Catholic / Lutheran Joint Commission. Ágsborg, 23.febrúar 1980 (útgefið með Ways to Community (Genf, 1981)), gr.14.
[12] Salvation and the Church. An Agreed Statement by the Anglican – Roman Catholic International Commission – ARCIC II (London, 1987), gr.19.
[13] Meissen gr.15.(ii); sbr. Pullach gr.23-25.
[14] Sjá gr.VIII
[15] Sjá gr. I. og III.
[16] Sbr. Meissen, gr.15.(iii).
[17] Meissen gr.15.(vii); sbr. Helsinki gr.44-51, sbr. einnig gr.14-20 hér að ofan.
[18] Meissen gr.15.(iv); sbr. Helsinki, gr.22-25.
[19] Pullach, gr.67
[20] Anglican – Roman Catholic International Commission. The Final Report. Windsor, september 1981 (London, 1982) (ARCIC I), Eucharistic Doctrine, gr.5.
[21] Lima, máltíð Drottins, gr.2.
[22] sbr. Helsinki, gr.28
[23] Lima, þjónusta, gr.17.
[24] Sjá Niagara gr.68, Meissen gr.15.(viii) og Helsinki gr.32-42.
[25] Lima, þjónusta gr.17.
[26] Lima, þjónusta, gr.22.
[27] Sbr. Niagara, gr.69, Meissen, gr.15.(ix).
[28] Sjá Niagara gr.23-30,41-59 og 81-110, og Pullach, gr.79-82.
[29] God’s Reign and Our Unity. The Report of the Anglican-Reformed International Committee 1981-1984 Woking, England, janúar 1984 (London, 1984), gr.18; Niagara, gr.70, Meissen, gr.15.(x).
Kafli IV
[1] Sjá ritgerðir í inngangi um biskupsþjónustuna í kirkjum okkar og J. Halliburton, “Orders and Ordinations” í Essays on Church and Ministry in Northern Europe, en það er viðbætir við lokaskýrslu Porvoo-samkomulagsins (sbr. neðanmálsgr.2 í formála).
[2] Lima, þjónusta, gr.34.
[3] Niagara, gr.21.
[4] Lima, þjónusta, gr.35.
[5] Sbr. Lima, þjónusta, gr.34: skýringar.
[6] Lima, þjónusta, gr.35.
[7] Lima, þjónusta, gr.13.
[8] Sbr. Lima, þjónusta, gr.22.
[9] Lima, þjónusta, gr.29.
[10] Lima, þjónusta, gr.26, 29.
[11] Sjá Niagara, gr.91.
[12] Sjá gr.17-20 hér að ofan.
[13] Sjá gr.47 og 48 hér að ofan.
[14] Sjá gr. 36 hér að ofan.
[15] Sögulegt baksvið er reifað í Essays on Church and Ministry in Northern Europe, sbr. neðanmálsgr.2 hér að framan.